frétt

Kæru aðstandendur

 Starfsfólk sýnir ótrúlega hugmyndaauðgi þegar kemur að því að stytta heimilisfólki stundir í þessu leiðinlega en óhjákvæmilega heimsóknarbanni.  Ég hvet ykkur til þess að finna leiðir til að eiga samskipti við ykkar fólk eða fá fréttir af því án þess að brjóta reglur um heimsóknarbann.  Það er margt hægt að gera eins og við höfum kynnst á undanförnum dögum.
 
Síðan ég sendi ykkur síðasta póst hefur auðvitað heilmikið gerst hér í bænum, nokkrir einstaklingar greinst með veiruna og um helmingur grunnskólabarna settur í sóttkví.  Það hefur því óneitanlega reynt á fólk þessa viku og við finnum það eins og sennilega þið öll að þetta kemur nær okkur með hverjum deginum.  Við erum búin að vera að undirbúa okkur undir það að heimilismaður gæti smitast og höfum gert margvíslegar breytingar og áætlanir um hvernig við tökumst á við það.  Við erum líka að breyta okkar vinnulagi nánast á hverjum degi til þess að minnka líkur á smiti hér í þessu litla samfélagi okkar.  Við ætlum hins vegar að halda áfram í vonina um að við getum haldið smiti frá fólkinu okkar og þökkum fyrir hvern dag sem okkur tekst það.
 
Kærar þakkir og góðar kveðjur frá öllum í Ási 😊
Birna