frétt

Gleðilegt sumar kæru aðstandendur

Gleðilegt sumar kæru aðstandendur

Það er í raun alveg ótrúlegt að við séum komin á þennan stað, að fagna sumarkomu og enn hefur enginn heimilismaður smitast af þessari skæðu veiru. Það ber að þakka samstilltu átaki allra sem að máli koma. Heimilismenn hafa sjálfir sýnt ótrúlegt æðruleysi og kjark á þessum erfiðu tímum, það er ekkert léttvæg tilhugsun að í leyni lúri óvinur sem töluverðar líkur eru á að þú lútir í lægra haldi fyrir. Starfsmenn leggja sig alla fram, bæði í sínu einkalífi og vinnu að útsetja hvorki sjálfa sig, fjölskyldur sínar eða heimilismenn fyrir smiti. Fyrir það eiga þeir svo sannarlega þakkir skildar og það er á tímum sem þessum að maður áttar sig best á því hve einstakt það fólk er sem velur að starfa í öldrunarþjónustu. Þið aðstandendur eruð svo þriðja hliðin á þríhyrningum og hafið sýnt ótrúlegan skilning og stuðning á þessum erfiðu tímum.
Nú sér hins vegar til lands, ákveðið hefur verið að létta á heimsóknarbanni með mjög stöngum skilyrðum þó. Ég skil vel að margir óttist að nú sé verið að taka of mikla áhættu og hvort ekki hefði verið nær að bíða lengur og sjá hvað gerist í samfélaginu eftir 4. maí þegar létt verður á ýmsum sóttvarnartakmörkunum. Það er hins vegar þannig að hjá okkur mun fátt annað breytast á þessum tímapunkti. Við munum reyndar opna aftur hárgreiðslu-, snyrti- og fótaaðgerðarstofurnar en með ákveðnum takmörkunum. Að öðru leyti höldum við í allt það sem við höfum gert til að minnka líkur á smiti heimilismanna. Heimsóknarbannið er sú aðgerð sem kannski má segja að sé mest íþyngjandi fyrir bæði heimilismenn og aðstandendur og þess vegna hefur verið ákveðið að fara þessa leið. Við munum fara mjög varlega og við minnsta bakslag þá drögum við aftur í land.
Við hlökkum til þess að fá ykkur í heimsókn og hvetjum ykkur til þess að kynna ykkur vel heimsóknarreglur sem við sendum ykkur í pósti næsta mánudag.


Sumarkveðja úr Ási,

Birna.