frétt

Kæru aðstandendur

Nú er lífið smátt og smátt að færast í fyrra horf hér í Ási.  Heimsóknir hafa gengið vel og flestir auðvitað himinlifandi yfir því að fá að hitta sína.  Í næstu viku, frá og með mánudeginum 25. maí léttum við enn á og þá má hver heimilismaður frá eina heimsókn á dag, áfram verður það þó bara einn gestur í einu og heimsóknin má vara í eina klukkustund.  Heimsóknir verða leyfðar milli klukkan 13.00 og 18.00 alla daga. Engar takmarkanir eru á því hve margir einstaklingar koma yfir vikuna svo lengi sem fyrrgreindum atriðum er fylgt.  Við getum kallað þetta 1-1-1 regluna, ein heimsókn á dag, einn einstaklingur í eina klukkustund.  Það þarf ekki að panta tíma og við treystum ykkur til þess að tala ykkur saman og passa að aðeins komi einn á dag.  Heimsóknir verða áfram inni á herbergi, ekki í sameiginlegu rými.  Heimilt er að nýta heimsókn til þess að fara í gönguferð eða bíltúr en við biðjum ykkur um að fara hvergi inn, ekki í heimahús, verslun, kaffihús eða annað.  Hikið ekki við að hringja og spyrja ef eitthvað er óljóst og eins ef þið viljið upplýsingar um heimilismann.  Ef fram heldur sem horfir gerum við svo ráð fyrir því að aflétta heimsóknarbanni 2.júní og þá verður starfsemin sennilega komin að mestu leyti í venjulegt horf.

 Þó svo að heimsóknarbannið sé sennilega einn stærsti þátturinn í því hve vel hefur tekist að verja hjúkrunarheimili í landinu gegn smiti er enginn vafi á því að það er líka ein erfiðasta og mest íþyngjandi aðgerð sem gripið var til.  Við sem berum ábyrgð á þessari ákvörðun horfum nú til baka og veltum fyrir okkur hvað við hefðum getað gert betur.  Hefðum við átt að hafa meiri fyrirvara?  Hefði það kannski leitt til þess að hjúkrunarheimilin hefðu fyllst af fólki rétt fyrir heimsóknarbann með tilheyrandi smithættu?  Hefðum við átt að bjóða einum aðstandanda að koma einu sinni áður en bann var sett?  Hefðum við átt að leyfa maka að koma í heimsókn ef hann hefði að öðru leyti haldið sig alveg heima í sóttkví?  Hefðum við getað bætt úr upplýsingagjöf á meðan á heimsóknarbanni stóð, náðu tölvupóstar til allra?  Náðu upplýsingar á Facebook til allra?  Hefðum við átt að hringja meira í aðstandendur?  Þetta eru allt spurningar sem við veltum fyrir okkur og mörgum öðrum.  Einhver líkti stöðunni sem við vorum í hér í upphafi faraldurs þannig að við værum öll saman í okkar fyrstu gönguferð á Tunglinu, við vorum öll í aðstæðum sem við höfðum aldrei verið í áður og reyndum að gera það sem okkur þótti réttast.  Við viljum gjarnan fá að heyra frá ykkur hvað hefði mátt gera betur, bæði frá ykkar sjónarhorni og heimilismanna.  Þó svo að nú sé komið ákveðið hlé þá vitum við öll að þessu er hvergi nærri lokið og við þurfum að nota þessa reynslu til þess að taka ákvarðanir í framtíðinni.  Kærar þakkir fyrir góða samvinnu og jákvætt viðhorf.

 Birna Sif

Heimsóknir

  • Hver heimilismaður getur fengið eina heimsókn á dag, í eina klukkustund og einn aðstandandi má koma í hvert sinn.  1-1-1- reglan !
  • Ekki þarf að panta tíma en heimsóknir eru leyfðar á tímabilinu kl. 13-18 alla daga. 
  • Börn yngri en 14 ára mega koma í heimsókn eftir 25. maí ef þau geta komið ein í heimsókn.
  • Heimsóknargestir eru áfram beðnir um að virða 2ja metra regluna gagnvart öðrum heimilismönnum og starfsfólki en mega knúsa sinn aðstandanda. 
  • Aðstandendur mega ekki koma í heimsókn ef þeir eru í sóttkví, einangrun, hafa verið í einangrun vegna Covid-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift, eru með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang ofl.)
  • Aðstandendur sem koma erlendis frá þurfa að hafa verið einkennalausir í 14 daga á landinu áður en þeir koma í heimsókn.
  • Heimsókn má nýta til gönguferðar með aðstandanda en ekki inn í heimahús, kaffihús, verslanir eða annað fyrr en eftir 2. júní.
  • Heimsókn má nýta til bílferðar með aðstandanda en ekki fara í heimahús, kaffihús, verslanir eða annað fyrr en eftir 2. júní.
  • Heimsóknarbanni verður að fullu aflétt 2. júní ef staða smita í samfélaginu verður áfram í lágmarki.