Nokkrir heimilismenn Áss nýttu síðustu blíðvirðisdaga sumarsins til þess að spila kubb.​ Ásgerður ræðst hér til atlögu gegn Ævari, Árna og Jakobi, sem fylgjast með, yfirvegaðir og stóískir.

Starfsfólkið í Ási fékk að gjöf á dögunum hitanuddtæki fyrir bak og háls  frá aðstandendum Harðar Magnússonar sem lést þann 11. júní sl. Með gjöfinni vildu aðstandendur  þakka fyrir  aðstoð, velvild, alúð og nærgætni. Aðstandendum Harðar er kærlega þakkað fyrir hugulsemina.

Sólveig og Guðmundur stóðu sig vel og fengu viðurkenningarskjal.

Í sumar var haldið  10 vikna jafnvægisnámskeið  í sal sjúkraþjálfunar Áss. Hér sjást þátttakendur námskeiðsins, Ástríður Hjartardóttir, Pálína Agnes Snorradóttir, Sólveig Björgvinsdóttir og Guðmundur Einarsson. Unnur Þórisdóttir, nemi í sjúkraþjálfun, lagði hart að þátttakendum og fengu þeir viðurkenningu eftir allt streðið, enda stóðu þau sig vel og tóku góðum framförum. Af myndunum að dæma er ekki annað að sjá en að þau séu í góðu jafnvægi.

Um hundrað heimilismenn úr Ási og tuttugu starfsmenn skelltu sér í sumarferð nýlega. Ekið var sem leið lá í yndislegu veðri austur í Fljótshlíð og drukkið kaffi hjá staðarhöldurum að Hótel Smáratúni. Veðrið lék við ferðalangana og eins og myndirnar endurspegla var ferðin vel lukkuð í alla staði.