Um þessar mundir eru að hefjast framkvæmdir við byggingu 74 þjónustuíbúða við Suðurlandsbraut 68 til 70 í Mörk. Það er Grund sem stendur að baki framkvæmdunum og þegar heimilið mun taka í notkun þessar nýju þjónustuíbúðir snemma árs 2018 verða nokkur ár í að Grund hafi sinnt öldruðum í heila öld.

Það var sumarið 1921 að Samverjinn með sr. Sigurbjörn Ástvald Gíslason í forsvari fór að halda skemmtisamfundi fyrir aldraða til að safna upp í byggingu fyrir aldraða og 29. október árið 1922 sem Grund, fyrir vestan Sauðagerðistún, var vígt sem elliheimili að viðstöddu fjölmenni.
Tvö af barnabörnum Sigurbjörns, Guðrún B. Gísladóttir, forstjóri Grundar og Guðrún Lárusdóttir, einn aðaleigandi Stálskips, tóku saman fyrstu skóflustunguna þann 15. júlí sl. Gestum var boðið upp á léttar veitingar og bæði Gísli Páll Pálsson, forstjóri í Mörk og Júlíus Rafnsson, stjórnarformaður Grundar Markarinnar héldu tölu við þetta skemmtilega tilefni.
Hjónin Guðrún Lárusdóttir og Ágúst Sigurðsson munu í gegnum fjárfestingafyrirtæki sitt, Stálskip, lána Grund um það bil þriðjung þess fjármagns sem þarf í að reisa byggingarnar.
Grund hefur verið rekið af sömu fjölskyldunni frá upphafi, fyrst var Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason í forsvari fyrir heimilið, þá var sonur hans Gísli Sigurbjörnsson forstjóri Grundar í um sextíu ár og dóttir hans, Guðrún B. Gísladóttir er í dag forstjóri Grundar. Sonur Guðrúnar, Gísli Páll Pálsson er forstjóri í Mörk og í dag starfa margir úr fimmta ættlið á hjúkrunarheimilunum þremur.