Fréttir

Aðventustjórnin

Fyrsta sunnudag í aðventu var kynnt ný ríkisstjórn Íslands undir forystu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Sömu stjórnmálaflokkar og á fyrra kjörtímabili, Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir. Flestir ráðherrar halda ráðherraembætti en tilflutningur þó sumra á milli ráðuneyta. Þá koma tveir nýir ráðherrar inn í hópinn þeir Jón Gunnarsson og Willum Þór Þórsson. Sá síðarnefndi nýr heilbrigðisráðherra en Willum var formaður fjárlaganefndar á síðasta kjörtímabili. Bind miklar vonir við Willum. Hann hefur góða innsýn í fjármál ríkisins og stofnana á fjárlögum og veit vel hvar skórinn kreppir. Meðal annars hjá hjúkrunarheimilum landsins. Stjórnarsáttmálinn er heldur þunn lesning og afar almennt orðaður. Þrátt fyrir að vera 60 blaðsíður þá er orðið hjúkrunarheimili ekki nefnt einu sinni. Í kaflanum um eldra fólk kemur orðið heimahjúkrun einu sinni fyrir. Þar er þó sagt að unnin verði aðgerðaráætlun til fimm ára í samstarfi við sveitarfélög, samtök eldri borgara og þjónustuaðila, jafnt opinbera sem sjálfstætt starfandi. Sú vinna verður væntanlega byggð ofan á og í framhaldi skýrslu eins manns nefndar Halldórs Guðmundssonar. Sem er vel. Sú skýrsla var um margt ágæt og prýðis grunnur til að byggja frekar ofan á. Ég hefði þó kosið aðeins skýrari nálgun á hvað stendur til að gera varðandi rekstur og fjármögnun þeirra rúmu tvö þúsund hjúkrunarrýma sem rekin eru hér á landi. Ég óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar í sínum störfum og vonast til að rekstrargrunnur hjúkrunarheimilanna verði tryggður á þessu kjörtímabili, og auðvitað vonandi til langrar framtíðar. Þar ber tvennt hæst. Sanngjarnar greiðslur fyrir þá þjónustu sem veitt er á hjúkrunarheimilunum auk þess sem að húsaleigugreiðslur er eitthvað sem verður að koma í rétt lag. Það er alls ekki sanngjarnt og rétt að ríkið komist upp með að greiða eingöngu þriðjunginn af þeim kostnaði sem hlýst af rekstri húsnæðis hjúkrunarheimilanna. Ef ekki kemur til úrbóta á þeim þætti drabbast núverandi húsnæði niður og verður ónothæft til hjúkrunaheimilisreksturs í framtíðinni. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna P.s. Í sáttmálanum er engin dagsetning sem segir til um hvenær hann er gerður eða til hvaða tímabils hann nær. Eitthvað sem afi minn heitinn Gísli Sigurbjörnsson hefði nú aldeilis ekki verið sáttur við. Og ekki ég heldur. Allt sem maður gefur frá sér á prenti eða alneti, tala nú ekki um ríkisstjórnarsáttmáli þriggja stjórnmálaflokka, verðskuldar dagsetningu. Sérstakt.

Heimilispósturinn - desember 2021