Holtavegshringur

4.5 km, 1 klst. miðað við 4.5 km/klst meðalgönguhraða.

Farið er með Mörkinni og yfir Suðurlandsbrautina við Langholtsveg. Svo strax
yfir suðurendann á Langholtsvegi og austur göngustíginn niður með Suðurlandsbrautinni. Í öðru húsi frá Langholtsveg er hænsnabú og má sjá hænsnin á sumrin í trjárunnunum vinstra megin.

Farið er sem göngustígurinn liggur niður með leikskólanum Steinahlíð og síðan meðfram Sæbrautinni til norðurs. Stundum má sjá börnin í Steinahlíð, sem er á vinstri hönd, að leik í rjóðrum trjánna í garðinum sem er stór og fjölbreyttur.

Eftir smá brekku tengist göngustígurinn gangstétt við Snekkjuvog og við beygjum nú til hægri inn á Barðavog og göngum norður hann. Eftir tæplega 100 m. kemur göngustígurinn aftur í ljós milli grenitrjánna til hægri og beygt er inn í hann og honum núna fylgt að Skeiðarvog.

Farið er yfir Skeiðarvoginn og haldið áfram eftir göngustígnum norður að Holtavegi og beygt upp hann. Látum ekki útstillingarnar í klámbúðinni á hægri hönd trufla gönguna lítum heldur til vinstri á frístundaheimili barna sem er nágranni klámbúðarinnar, hinu megin við Holtaveginn.

Við höldum nú áfram yfir Langholtsveginn á gönguljósunum þar sem gangbrautarvörður hefur varðskýli á horninu, til að leita skjóls í, þegar hann er ekki að passa börnin sem ætla yfir götuna. (Austan megin við Langholtsveginn, við gönguljósið er greipt í gangstéttina minningarskjöldur um Helga Hóseasson „mótmælanda Íslands“). Áfram er haldið niður í Laugardalinn framhjá Langholtsskóla sem er þá á vinstri hönd og KFUM og KFUK á hægri hönd og svo kemur glæsilegur leikskóli þar lengra.

Við förum beint áfram inn á göngustíg sem liggur upp austan við Fjölskyldugarðinn, sem er þá á hægri hönd. Þegar komið er upp á móts við TBR hallirnar kemur göngustígur, til vinstri, upp með norður enda hallanna sem við beygjum inn í og göngum upp, yfir þverstíg sem kemur þar og áfram upp göngustíginn með blokkinni sem þar kemur og alla leið upp á Áfheimana.

Við göngum nú suður Álfheima að Glæsibæ og förum þar yfir á göngustíginn fyrir aftan OLÍS stöðina og fylgjum honum síðan yfir Skeiðarvog að Mörk.