Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur

Flestum okkar finnst sjálfsagt að búa við góða heilsu.  Ég hef í það minnsta verið heppinn hingað til og verið heilsuhraustur það sem af er ævi.  Minnist þess ekki að hafa legið á sjúkrahúsi eða veikst alvarlega.  En það er síður en svo sjálfgefið hjá síðmiðaldra manni eins og mér.  Engu að síður getur maður gleymt sér og fundist lífið eitthvað ómögulegt þegar það í raun blasir við manni, fullt af tækifærum og skemmtilegheitum.

Sleit sin í löngutöng um daginn, líklega í flugeldasölunni.  Fremsta kjúkan lafði aðeins niður og ég fór ekki strax til læknis.  Kíkti á HSU í síðustu viku og fékk þá þessa niðurstöðu með slitnu sinina.  Og þar sem ég hafði trassað að láta kíkja á þetta þarf ég að vera með spelku á fingrinum næstu sjö vikurnar.  Hefur aðeins takmarkandi áhrif á mig, get til dæmis ekki tekið þátt í björgunarsveitarstörfum af neinu viti fyrr en í mars.  Var smá svekktur til að byrja með en var kippt gersamlega niður á jörðina í síðustu viku.  Þurfti að fara í verslunina Stoð í Hafnarfirði að kaupa mér aðeins stærri spelku á puttann.  Á undan mér í búðinni var ung kona, rúmlega tvítug, mjög líklega með einhvern ólæknandi vöðvarýrnunarsjúkdóm, var frekar veikburða að sjá.  Hún var að fá nýjar hækjur og á hækjurnar var verið að setja færanlegan brodd til að setja niður til notkunar í hálkunni.  Síðan var hægt með einu handtaki að setja broddinn til hliðar.  Andlit hennar ljómaði yfir því sem hún var að fá og ég heyrði á henni hvað hún var glöð með þetta allt saman, hækjurnar og fiffið sem fólst í því að setja broddinn niður með einu handtaki.  Ég dauðskammaðist mín yfir því að hafa dottið í hug að kvarta, reyndar bara innra með mér og við Öldu, vegna þessarar litlu fingurspelku.  Ég get verið alveg klikk.

Þarna sá ég hversu lánsamur ég hef verið í gegnum tíðina og hef í raun yfir engu að kvarta.  Munum þetta dæmi mitt næst þegar við dettum í einhvern dökkálfagír út af einhverjum smámunum, vondu veðri, óþekkum börnum eða slitnum sinum.  Hlutskipti okkar gæti orðið að fagna með bros á vör og þakklæti brodd á hækjum, sem við þyrftum að nota fyrir lífstíð.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna